Þorleifur Halldórsson
Quick Facts
Biography
Þorleifur Halldórsson (1683 - 15. nóvember 1713) var íslenskur rithöfundur og skólameistari í Hólaskóla. Hann fæddist að Dysjum á Álftanesi um 1683. Faðir hans var Halldór Stefánsson en nafn móður hans er óþekkt.
Foreldrar Þorleifs voru fátæk og gátu ekki kostað hann til mennta en hann var frábærlega vel gefinn og Jón Þorkelsson Vídalín, sem þá var sóknaprestur í Garðasókn, kom auga á námshæfileika hans og ákvað að kenna honum án borgunar en ella hefði Þorleifur enga menntun hlotið. Þegar Jón hafði verið vígður biskup í Skálholti 1698 hóf Þorleifur nám við Skálholtsskóla og lauk stúdentsprófi árið 1700. Að náminu loknu starfaði hann við kennslu og vinnumennsku en árið 1703 hélt hann utan til náms í Kaupmannahafnarháskóla. Skipið rak af leið og endaði við strendur Noregs. Þorleifur stytti sér stundir á leiðinni með því að skrifa fræga ritgerð sína Mendacii encomium á latínu eftir fyrirmynd Erasmusar frá Rotterdam. Hann íslenskaði ritgerðina sjálfur árið 1711 og heitir ritið í hans þýðingu Lof lyginnar en fyrirmyndin var ritEarsmusar, Lof heimskunnar.
Þorleifur stundaði nám og störf í Kaupmannahöfn næstu árin við góðan orðstír og hlaut meistaranafnbót fyrir. Þegar Steinn Jónsson Hólabiskup kom til Kaupmannahafnar til að fá biskupsvígslu fékk hann Þorleif til að koma með sér heim og verða skólameistari á Hólum. Var það haustið 1711. Því starfi gegndi Þorleifur þó aðeins í tvo vetur því hann lést úr berklum þann 15. nóvember 1713, aðeins þrítugur að aldri. Hann var ókvæntur.