Kristin Astgeirsdottir
Quick Facts
Biography
Kristín Ástgeirsdóttir (fædd 3. maí 1951) er íslenskur sagnfræðingur, fyrrum þingkona Kvennalistans og fyrrverandi framkvæmdastýra Jafnréttisstofu.
Kristín var kjörin á þing fyrir Samtök um kvennalista í Reykjavíkurkjördæmi árið 1991. Hún sat á þingi til ársins 1999 en var utan þingflokka frá 1997 eftir að hluti þingflokks Kvennalista gekk í sameiginlegan þingflokk jafnaðarmanna ásamt þingflokkum Alþýðuflokks og Alþýðubandalags sem varð svo undanfari Samfylkingarinnar.
Kristín fæddist í Vestmannaeyjum og voru foreldrar hennar hjónin Ástgeir Ólafsson (Ási í Bæ) rithöfundur og Friðmey Eyjólfsdóttir hjúkrunarfræðingur.
Nám og störf
Kristín lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1971, stundaði háskólanám í Svíþjóð frá 1971-1972 og lauk BA-prófi í sagnfræði og bókmenntum frá Háskóla Íslands árið 1977. Hún stundaði framhaldsnám í sagnfræði við Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla um tíma en lauk síðar meistaraprófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands eftir að þingferlinum lauk.
Frá 1980-1981 var Kristín blaðamaður á Þjóðviljanum, hún var starfskona Samtaka um kvennalista frá 1982-1985, kennari í sögu við Kvennaskólann í Reykjavík frá 1985-1991 og stundaði einnig kvennarannsóknir frá 1985-1982. Hún var alþingismaður frá 1991-1999 og starfaði fyrir Sameinuðu þjóðirnar í Kosovo frá 2000-2001, var forstöðumaður Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum (RIKK) frá 2005-2007 og var framkvæmdastýra Jafnréttisstofu frá 2007-2017.
Kristín starfaði innan Rauðsokkahreyfingarinnar frá 1976-1981 og var meðal stofnenda Kvennaframboðsins í Reykjavík árið 1982 og Samtaka um kvennalista ári síðar.
Ritstörf
Kristín hefur í gegnum árin stundað rannsóknir á sviði kvenna- og kynjasögu og ritað fjölmargar fræðigreinar á því sviði. Meðal annars ritstýrði hún ásamt Arnfríði Guðmundsdóttur bókinni Kvennabarátta og kristin trú sem kom út árið 2009.
Tilvísanir
- ↑ Alþingi, „Tilkynning um úrsögn úr þingflokki“ (skoðað 29. júní 2019)
- ↑ Alþingi, Æviágrip - Kristín Ástgeirsdóttir (skoðað 29. júní 2019)
- ↑ „Jafnréttið er fjölbreytt og spennandi“ Fréttablaðið, 9. desember 2007 (skoðað 29. júní 2019)
- ↑ Jafnretti.is, „Kvennabarátta og kristin trú“ (skoða 29. júní 2019)