peoplepill id: brynjulfur-jonsson
BJ
2 views today
8 views this week
Brynjúlfur Jónsson

Brynjúlfur Jónsson

The basics

Quick Facts

The details (from wikipedia)

Biography

Brynjúlfur Jónsson (Brynjúlfur frá Minna-Núpi) (26. september 1838 – 16. maí 1914) var sjálfmenntaður íslenskur alþýðumaður sem lagði stund á fornleifafræði, heimspeki, kveðskap, þjóðsagnasöfnun og ritstörf. Hans mestu afrek voru á sviði fornleifafræðinnar en hann ferðaðist um landið, rannsakaði fornminjar og skrifaði skýrslur í Árbók hins íslenska fornleifafélags. Hann er einnig þekktur fyrir að hafa skrifað söguna af Þuríði formanni og Kambsránsmönnum sem stundum er talin vera yngsta Íslendingasagan .


Æviskeið

Brynjúlfur var frá Minna-Núpi í Gnúpverjahreppi, Árnessýslu, sonur hjónanna Jóns Brynjúlfssonar og Margrétar Jónsdóttur. Hann var elstur af sjö systkinum og ólst upp í fátækt. Brynjúlfur naut engrar skólagöngu fyrir utan að þegar hann var 17 ára var hann í hálfan mánuð hjá presti til að læra grunn í dönsku, reikningi og skrift. Sama ár fór hann á vetrarvertíð og var við útróðra á vetrum til þrítugs þrátt fyrir bága heilsu. Á vorin reri hann í Reykjavík og komst þar í kynni við ýmsa menntamenn sem útveguðu honum bækur, svo að hann gat lært dönsku og lesið sér til um málfræði, náttúrusögu, landafræði og margt annað sem hann hafði áhuga á.

Brynjúlfur hafði alla tíð verið heilsulítill en um þrítugt veiktist illa með tímanum þurfti hann að hætta allri erfiðisvinnu. Sjálfur kenndi hann um falli af hestbaki. Veikindin sjálf sá hann sem lán í óláni; þar sem hann mátti ekki stunda erfiðisvinnu fékk hann meiri tíma til að mennta sig eins og hann sagði sjálfur í ævisögu sinni: „Þá er veikindi mín voru að byrja og lengi síðan, áleit ég þau hina mestu ógæfu; en svo hefir guðleg forsjón hagað til, að þau urðu upphaf minna betri daga.“ Þegar Brynjúlfi batnaði hóf hann að kenna börnum á veturna til þess að sjá fyrir sér og fékk síðar launað starf hjá Fornleifafélaginu, en Sigurður Guðmundsson málari hafði vakið áhuga hans á fornleifum. Um leið hélt hann stöðugt áfram að lesa sér til og fræðast og tókst að verða vel læs á sænsku, þýsku og ensku auk dönskunnar.

Brynjólfur kvæntist ekki en eignaðist einn son, Dag Brynjúlfsson hreppstjóra í Gaulverjabæ.

Fornleifarannsóknir

Árið 1893 gerðist Brynjúlfur skráningarmaður fyrir Hið íslenzka fornleifafélag og birtust greinar og athugasemdir eftir hann í Árbók hins íslenzka fornleifafélags allt til ársins 1911. Þrátt fyrir heilsuleysi reið Brynjúlfur um landið í 16 sumur fyrir Fornleifafélagið og Forngripasafnið. Á ferðum sínum skráði hann lýsingar sögustaða og fornleifa og safnaði gripum fyrir Forngripsafnið .

Þjórsárdalur

Brynjúlfur skrifaði í þremur ritgerðum lýsingu á Þjórsárdal ásamt uppdráttum af nokkrum bæjarústum. Einungis tvær af þessum ritgerðum hafa varðveist en sú síðasta var skrifuð 1880 og kom út í Árbók fornleifafélagsins 1885 .

Önnur verk

Brynjúlfur safnaði þjóðsögum í Árnessýslu sem meðal annars birtust í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Einnig skráði hann Söguna af Þuríði formanni og Kambsránsmönnum sem er héraðssaga Árnesinga á 19. öld og stundum talin yngsta Íslendingasagan .

Brynjúlfur var líka heimspekilega þenkjandi og gaf út ritið Saga hugsunar minnar um sjálfan mig og tilveruna 1912, tveimur árum áður en hann lést, en hann hafði lengi verið að vinna að þessu riti þar sem hann tekst á við hugmyndir sínar um heimspeki og trú.

Brynjúlfur lagði einnig stund á kveðskap og orti hann heimspekiljóð, söguljóð og tækifæriskvæði.

Ævilok

Síðustu ár ævi sinnar bjó Brynjúlfur á Eyrarbakka en hann fékk lungnabólgu vorið 1914 og lést 16. maí sama ár.

Tenglar

The contents of this page are sourced from Wikipedia article. The contents are available under the CC BY-SA 4.0 license.
Lists
Brynjúlfur Jónsson is in following lists
comments so far.
Comments
From our partners
Sponsored
Brynjúlfur Jónsson
arrow-left arrow-right instagram whatsapp myspace quora soundcloud spotify tumblr vk website youtube pandora tunein iheart itunes