Andrés Magnússon
Quick Facts
Biography
Andrés Magnússon (fæddur 1965) er íslenskur blaðamaður, sem skrifar um stjórnmál og fleira í Viðskiptablaðið. Andrés er búsettur á Englandi, ásamt konu sinni Auðnu Hödd Jónatansdóttur (fædd 1973) og fimm börnum.
Andrés hóf fjölmiðlaferil sinn sem blaðamaður á Morgunblaðinu. Hann hefur starfað á ýmsum fjölmiðlum öðrum, meðal annars á DV, Pressunni, Eintaki og Blaðinu (síðar 24 stundum).
Hann hefur mikið fengist við skoðanaskrif og heldur fram hægrisinnuðum viðhorfum. Sem slíkur hefur hann verið reglulegur álitsgjafi í umræðuþáttum á borð við Silfur Egils. Hann var flokksbundinn sjálfstæðismaður um árabil og var virkur í hreyfingu ungra sjálfstæðismanna fyrr á árum. Hann er bróðir Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Andrés sagði sig úr Sjálfstæðisflokknum 2. febrúar 2011 þegar forysta flokksins afréð að styðja frumvarp um Icesave-samninga á Alþingi.
Auk skrifa um stjórnmál og viðskipti hefur Andrés fjallað talsvert um netið, tölvur og tækni. Hann hefur einnig fengist við upplýsingagrafík og hönnun samhliða blaðamennsku og vann um skeið á auglýsingastofu við hönnun og almannatengsl.