Valgarður Egilsson
Quick Facts
Biography
Valgarður Egilsson (20. mars 1940–17. desember 2018) var íslenskur læknir, frumulíffræðingur, rithöfundur og leiðsögumaður.
Hann var kvæntur Katrínu Fjeldsted lækni og stjórnmálamanni og eignuðust þau fjögur börn saman: Jórunni Viðar (f. 1969), Einar Véstein (f. 1973, d. 1979), Véstein (f. 1980) og Einar Stein (f. 1984). Þar að auki átti hann dóttur af fyrra sambandi: Arnhildi (f. 1966).
Valgarður var sonur hjónanna Egils Áskelssonar (f. 28. febrúar 1907, d. 25. janúar 1975), bónda og kennara, frá Austari-Krókum á Flateyjardalsheiði og Sigurbjargar Guðmundsdóttur (f. 22. ágúst 1905, d. 10. desember 1973), húsfreyju og símstöðvarstjóra, frá Lómatjörn í Höfðahverfi. Hann fæddist á Grenivík og ólst upp á Hléskógum í Höfðahverfi, fimmti í röð átta systkina.
Valgarður var stúdent frá MA. Hann lauk prófi í læknisfræði við Háskóla Íslands árið 1968 og varði doktorsritgerð sína, Effects of chemical carcinogens and other compounds on mitochondria with special reference to the yeast cell við University College í London árið 1978.
Valgarður var formaður Listahátíðar í Reykjavík 1990 og 1994 og varaformaður 1992. Hann fékkst við leiðsögu í mörg ár, einkum í Fjörðum og víðar við utanverðan Eyjafjörð og var varaforseti Ferðafélags Íslands.
Eftir Valgarð liggja nokkrar bækur og fjöldi greina, bæði um vísindi og ýmislegt annað.
Á landsmóti UMFÍ 1958 setti Valgarður tvö Íslandsmet í sundi.
Árið 1960 fann Valgarður skeggburkna í Höfðahverfi, fágæta burknategund sem ekki hafði fundist áður á Íslandi.
Ritaskrá (bækur)
- Valgarður Egilsson: Dags hríðar spor, Almenna bókafélagið, Reykjavík 1980.
- Valgarður Egilsson: Ferjuþulur - rím við bláa strönd, Almenna bókafélagið, Reykjavík 1985.
- Valgarður Egilsson: Dúnhárs kvæði, Iðunn, Reykjavík 1988.
- Valgarður Egilsson: Waiting for the South Wind - from the North coast of Iceland, Leifur Eiríksson, Reykjavík 2001. ISBN 9979-60-674-6.
- Valgarður Egilsson: Á mörkum, JPV útgáfa, Reykjavík 2007. ISBN 978-9979-798-51-4
- Valgarður Egilsson: Steinaldarveislan, SAGA forlag, Reykjavík 2014. ISBN 9789935923103.
Meðhöfundur
Árbók Ferðafélags Íslands: Í strandbyggðum norðan lands og vestan. Reykjavík. Ferðafélag Íslands. 2000.
Heimildir
- ↑ Doktorsritgerðaskrá: Um doktorsritgerð Valgarðs Egilssonar
- ↑ Listahátíð í Reykjavík: Listi yfir stjórnir Listahátíðar í Reykjavík
- ↑ SkeggburkniFlóra Íslands