Þórður Tómasson
Quick Facts
Biography
Séra Þórður Tómasson (7. desember 1871 – 21. ágúst 1931) var íslenskur prestur í Danmörku, ljóðskáld og þýðandi. Þórður var prestur alla ævi í Danmörku og var síðast klausturprestur í Vemmetofte, sem er klaustur á Sjálandi í Danmörku. Klausturembættið var þá einskonar heiðursembætti, ætlað velmetnum eldri prestum, sem hneigðir voru fyrir skáldmennt og bókagerð, svo að þeir gætu gefið sig að slíku í næði. Þórður er einna þekktastur fyrir að hafa þýtt Passíusálmanna, eftir Hallgrím Pétursson, á dönsku.
Þórður fæddist á Akureyri — á gamla spítalanum svonefnda þar sem foreldrar hans bjuggu. Hann var skírður Þórður Tómas. Faðir hans var Þórður héraðslæknir Tómasson (prófasts Sæmundssonar á Breiðabólstað), en móðir hans, Camilla Christiane, var dönsk, dóttir píanósmiðs Enig í Kaupmannahöfn. Þegar Þórður var tveggja ára lést faðir hans, og fluttist móðir hans þá til Danmerkur næsta ár með börnum sínum tveimur, Þórði og dóttir þeirra hjóna, lítið eitt eldri, sem hét María.
Ellefur ára var Þórður settur í Borgaradyggðaskólann á Kristjánshöfn og útskrifaðist þaðan 1890 með ágætiseinkunn. Hvarf hann þá að guðfræðinni og lauk embættisprófi vorið 1896 með lofseinkunn í öllum greinum nema einni, kirkjusögu, þar hlaut hann ágætiseinkunn. Næsta vetur var hann húskennari hjá Ahlefeldt Laurvigen greifa og stóreignamanna á Kjærsgaard (á Fjóni). Hann fékkst annars við ritstörf og kennslu („manuduction“ í heimspeki og guðfræði) í Kaupmannahöfn uns hann undir árslok 1898 var skipaður annar prestur við Klausturkirkjuna í Horsens og skömmu síðar prestvígður.
Um sama leyti kvæntist hann danskri heitmey sinni Christine Paybjerg, en með henni átti hann þrjár dætur. Árið 1904 varð hann sóknarprestur við sömu kirkju og hélt því embætti uns hann 1925 varð prestur á Vemmetofte-klaustri á Sjálandi (nálægt Faxe). Dvöl hans þar varð skammæ, aðeins rúm 6 ár. Hann andaðist í sumarbústað sínum í Sönderho á Fanö.