Skarðs-Snorri Narfason
Quick Facts
Biography
Snorri Narfason eða Skarðs-Snorri (um 1175 – 13. september 1260) var íslenskur höfðingi á 13. öld. Hann bjó á Skarði á Skarðsströnd og segir Sturlunga hann hafa verið auðugasta mann í Vestfjörðum.
Snorri var sonur Narfa Snorrasonar á Skarði, sonar Snorra Húnbogasonar, og konu hans Guðrúnar Þórðardóttur. Þórður bróðir hans var tengdafaðir Sturlu Þórðarsonar. Snorri var prestvígður og stundum kallaður Snorri Skarðsprestur. Hann var friðsamur eins og Skarðverjar voru flestir og tókst að komast óskaddaður hjá öllum erjum og ófriði Sturlungaaldar en var oft fenginn til að reyna að koma á griðum og sættum eða dæma í málum. Hann var þó góður vinur Sighvatar Sturlusonar og Sturlu sonar hans og voru synir hans oft með Sturlungum í herferðum þeirra.
Kona Snorra var Sæunn Tófudóttir og áttu þau nokkra syni. Bárður og Sigmundur hlutu báðir örkuml í Örlygsstaðabardaga og lágu á Silfrastöðum um veturinn. Seinna stýrðu þeir búi sem faðir þeirra átti á Reykhólum og þar var Bárður drepinn með Tuma Sighvatssyni 1244 en um Sigmund er ekki vitað. Bjarni Snorrason bjó í Skarði eftir föður sinn, sem varð gamall og dó 1260. Narfi Snorrason var prestur á Kolbeinsstöðum en tveir af þremur sonum hans, Þórður og Snorri, bjuggu á Skarði.