Sigvarður Halldórsson
Quick Facts
Biography
Sigvarður Halldórsson (d. 1550) var síðasti ábótinn í Þykkvabæjarklaustri og tók við af Kollgrími Koðráðssyni árið 1527. Hann gegndi embætti til siðaskipta og lést í Danmörku en þangað hafði hann farið til að reyna að fá biskupsvígslu.
Sigvarður er sagður hafa verið lítt lærður en vildi bæta úr því og fékk Gissur Einarsson til að kenna sér og munkum sínum. Gissur dvaldi í klaustrinu í tvö ár og Gissur seinna að þar hefði hann átt góða daga því hann hafði nægan tíma til náms og góðan bókakost.
Ögmundur Pálsson biskup og Sigvarður áttu í deilum og kærði biskup ábótann fyrir að hafa sett sig á móti valdi kirkjunnar og biskups. Sigvarður hefur því verið sjálfstæður og óhræddur við biskupsvaldið. Þeir sættust þó og árið 1534 fékk Ögmundur Sigvarð til að vígja fyrir sig nýjan príor í Skriðuklaustri.
Eftir að Gissur var orðinn Skálholtsbiskup hélt hann prestastefnu í Miðdal í Laugardal. Þar var Sigvarður einn af sex sem báðust undan því að taka upp hinn nýja sið og afsökuðu sig með elli og lasleika. Gissur hafði fengið bréf hjá konungi til Sigvarðar ábóta um að hann skyldi halda lestrarskóla í klaustrinu en það var þá ætlun konungs að stofna skóla í öllum klaustrunum þótt hætt væri við þau áform seinna. Sigvarður var þó áfram í klaustrinu ásamt fimm munkum; þeir hétu Jón Árnason, Jón Oddsson, Jón Grímsson, Magnús og Sæmundur.
Eftir að Gissur biskup 1548 lést kusu þeir prestar sem vildu halda í kaþólskuna Sigvarð sem biskup en hinir kusu Martein Einarsson. Þeir fóru báðir til Danmerkur til að reyna að fá vígslu en þar sem lútherskan var allsráðandi þar var það að sjálfsögðu Marteinn sem fékk vígsluna og fór heim sem biskup. Sigvarður varð eftir í Danmörku og dó þar 1550 og er sagt að hann hafi þá verið búinn að taka hinn nýja sið.