Runólfur Sigmundsson
Quick Facts
Biography
Runólfur Sigmundsson (d. 1307) var íslenskur rithöfundur, munkur og síðar ábóti í Þykkvabæjarklaustri. Hann var vígður 1264 og tók við af Brandi Jónssyni, sem varð biskup á Hólum 1263, og gegndi embættinu til dauðadags, eða í 43 ár.
Runólfur er sagður hafa verið af ætt Svínfellinga, frændi og lærisveinn Brands ábóta, sem hrósaði honum mikið fyrir iðni og sagðist engum hafa kennt „er jafnkostgæfinn var og jafngóðan hug lagði á nám sitt, sem Runólfur". Hann var hægri hönd Árna Þorlákssonar Skálholtsbiskups í staðamálum og kemur mjög mikið við þá sögu. Hann er jafnvel sagður hafa haldið hlut kirkjunnar enn harðar fram gegn leikmönnum en biskup sjálfur og stappaði í hann stálinu þegar hik kom á hann.
Þegar Árni biskup fór út 1288 til að reka mál sín fyrir konungi varð Runólfur umboðsmaður hans eða officialis þar til hann kom heim 1291 og þótti þá ganga hart fram í að ná kirkjustöðum af leikmönnum. Hann varð aftur officialis 1299 eftir lát Staða-Árna, þar til Árni Helgason kom heim með biskupsvígslu. Runólfi var stefnt utan 1303 en hefur líklega ekki farið. Hann dó 1307.
Runólfur var rithöfundur og skrifaði meðal annars sögu af heilögum Ágústínusi og stóð fyrir ritun annarra bóka. Þess hefur verið getið til að hann kunni að vera höfundur Svínfellinga sögu. Á ábótaárum hans voru munkar í klaustrinu þeir Andrés drengur, sem varð ábóti í Viðey 1305, og Guðmundur Þorvarðarson, sem varð ábóti á Helgafelli sama ár. Sjálfsagt hefur eftirmaður Runólfs, Loðmundur, einnig verið munkur í Þykkvabæjarklaustri.