Magnús Guðbrandsson
Quick Facts
Biography
Magnús Guðbrandsson (4. janúar 1896 – 23. október 1991) var skrifstofumaður og knattspyrnumaður með Val og Fram.
Ævi og störf
Magnús fæddist í Reykjavík, sonur Guðbrands Þórðarsonar skósmíðameistara og Katrínar Magnúsdóttur frá Syðra Langholti. Árið 1927 kvæntist hann Júlíönu Oddsdóttur frá Stykkishólmi. Magnús starfaði lengst af sem fulltrúi hjá Olíuverslun Íslands.
Magnús hóf að iðka knattspyrnu með Knattspyrnufélaginu Hvat, en það var ásamt Val og Haukum eitt þriggja félaga sem stofnuð voru innan KFUM. Var ætlun séra Friðriks Friðrikssonar að félögin myndu einungis leika innbyrðis, en ekki blanda sér í keppni við önnur knattspyrnufélög.
Svo fór að leikmenn Hvats gengu til liðs við Val og varð Magnús snemma einn öflugasti leikmaður liðsins. Árið 1918 var hann kjörinn formaður félagsins og lék með fyrsta úrvalsliði Íslendinga gegn danska liðinu Akademisk Boldklub sumarið 1919.
Um þær mundir fór verulega að halla undan fæti hjá Valsmönnum. Liðið dró sig út úr Íslandsmótinu 1919 og tók ekki þátt næstu þrjú árin. Magnús gekk þá til liðs við Framara og varð Íslandsmeistari undir þeirra merkjum árin 1922, 1923 og 1925.