Hannes Eggertsson
Quick Facts
Biography
Hannes Eggertsson (um 1485 – 1533) var norskur umboðsmaður konungs og hirðstjóri á Íslandi á 16. öld. Hann er kallaður Hans í sumum samtímaheimildum og skrifar nafn sitt þannig sjálfur.
Faðir Hannesar var Eggert Eggertsson, lögmaður í Víkinni, sem var aðlaður af konungi 1488. Hann var veginn á bænum Skógi í Víkinni 1493. Móðir Hannesar hét Jóhanna Matthíasdóttir. Hannes kom til Íslands upp úr 1510, líklega í erindum Danakonungs eða sem umboðsmaður hirðstjóra.
Hann var fullmektugur eða fógeti Sørens Andersen Norby frá 1514 og gegndi hirðstjórastarfinu í raun en Norby virðist hafa haldið hirðstjóranafnbótinni til 1517, þegar Týli Pétursson tók við. Hirðstjóratíma Týla lauk 1520 og hafði hann hug á að fá hann framlengdan en hann var óvinsæll vegna yfirgangs og Vigfús Erlendsson, sem áður hafði verið hirðstjóri, sóttist einnig eftir embættinu. Þeir sigldu út á sama skipi en Vigfús dó erlendis. Týli fékk þó ekki hirðstjórn, heldur Hannes, og er skipunarbréf hans dagsett 6. október 1521.
Týli var í Flensborg næstu árin en vorið 1523 kom hann aftur til Íslands og taldi sig þá hirðstjóra, skipaðan af Kristjáni 2., sem í sama mund var steypt af stóli í Danmörku og rekinn í útlegð. Fór Týli með flokk manna, innlendra og erlendra, að Bessastöðum, þar sem Hannes hafði aðsetur, rændi og ruplaði, braut upp kirkju og kistur og flutti svo Hannes sjálfan nauðugan inn í Hólm (til Reykjavíkur) og hafði hann í haldi þar um tíma en sleppti honum síðan. Ögmundur biskup og Erlendur Þorvarðarson lögmaður skipuðu tylftardóm sem úrskurðaði 28. maí í Viðey að skipunarbréf Hannesar væri gilt og Týli skyldi skila fénu. Fáum dögum síðar, þann 1. júní, dæmdi tylftardómur nefndur af Erlendi lögmanni Týla óbótamann. Hannes fékk bæði Íslendinga og þýska kaupmenn í lið með sér og náðu þeir Týla og afhöfðuðu.
Hannes gengdi embættinu til 1524, þegar hann flutti til Hamborgar og lét hirðstjóravöld í hendur Jóhanni Péturssyni. Hann flutti þó aftur til Íslands eftir fáein ár en var þá embættislaus. Hann bjó á Núpi í Dýrafirði og var vellauðugur; virðist hafa verið ágætlega liðinn af Íslendingum. Hann dó að sögn á náðhúsi á Bessastöðum.
Kona hans var Guðrún Björnsdóttir eldri (1489-1563), dóttir Björns Guðnasonar sýslumanns í Ögri og konu hans Ragnhildar Bjarnadóttur. Hún bjó áfram stórbúi á Núpi eftir lát manns síns. Guðrún hafði áður verið gift Bjarna lögréttumanni (d. 1508) á Brjánslæk, syni Andrésar Guðmundssonar í Bæ (Saurbæ) á Rauðasandi. Á meðal barna Hannesar og Guðrúnar voru Eggert Hannesson lögmaður í Bæ, Björn sýslumaður í Bæ og Katrín biskupsfrú, kona Gissurar biskups Einarssonar.
Heimildir
- Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.
- Íslenskt fornbréfasafn, 9. bindi, Reykjavík 1909-1913.
Fyrirrennari: Týli Pétursson |
| Eftirmaður: Jóhann Pétursson |