Eggert Björnsson
Quick Facts
Biography
Eggert Björnson ríki (1612 – 14. júní 1681) var íslenskur sýslumaður og stórbóndi á 17. öld og var talinn auðugasti maður landsins um sína daga. Hann var af ætt Skarðverja og bjó á Skarði á Skarðsströnd.
Eggert var sonur Björns Magnússonar sýslumanns í Bæ á Rauðasandi, sonar Magnúsar prúða, og fyrri konu hans Sigríðar Daðadóttur frá Skarði. Móðir hans dó þegar hann var barn að aldri og hann ólst að einhverju leyti upp í Bræðratungu hjá Gísla Hákonarsyni lögmanni. Yngri hálfsystkini hans voru þau Páll Björnsson prestur í Selárdal og Sigríður prestsfrú í Odda, móðir Björns Þorleifssonar biskups á Hólum.
Eggert var sýslumaður í Barðastrandarsýslu og dyggur liðsmaður Páls bróður síns í galdraofsóknum þar. Hann erfði mikið fé eftir móður sína og foreldra hennar, Daða Bjarnason og Arnfríði Benediktsdóttur á Skarði, og gekk vel að auka við þann auð. Honum tókst að eignast allar jarðir á Skarðsströnd nema eina og var það Arnarbæli. Sagt er að honum hafi gramist það mjög og mælt: „Oft vekur þú mig, Arnarbæli.“ Þegar Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var gerð í upphafi 18. aldar áttu dætur Eggerts og tvær dótturdætur um 3,5% allra jarðeigna á Íslandi.
Kona Eggerts var Valgerður Gísladóttir (um 1612 – 1702), dóttir Gísla Hákonarsonar í Bræðratungu og Margrétar Jónsdóttur konu hans. Er sagt að hann hafi áður beðið Kristínar systur hennar og hafi hún verið heitin honum en þegar Þorlákur Skúlason, þá nýorðinn Hólabiskup, bað Kristínar þótti Gísla illt að neita og samdi við Eggert og föður hans um að Eggert fengi yngri systurinnar í staðinn. Gengu þau í hjónaband 1633 og bjuggu alla tíð á Skarði. Báðir synir þeirra dóu um tvítugt og tvær dætur einnig en fimm lifðu: Guðrún (eldri), sem lengi bjó ekkja í Bæ á Rauðasandi og hafði verið gift Birni Gíslasyni sýslumanni þar; Arnfríður húsfreyja á Skarði, gift Þorsteini Þórðarsyni; Helga eldri, bjó ógift á Dagverðarnesi; Helga yngri, kona Guðmundar Þorleifssonar ríka í Brokey; og Guðrún yngri, kona Guðmundar Sigurðssonar bónda í Álftanesi á Mýrum. Dæturnar giftust allar seint því fáir þóttu þeim samboðnir.