Þorleifur Grímsson

The basics

Quick Facts

A.K.A.Thorleifur Grímsson
A.K.A.Thorleifur Grímsson
Gender
Male
Death1560
The details

Biography

Þorleifur Grímsson ríki (um 1490 – 1560) var íslenskur sýslumaður á 16. öld, einn ríkasti maður landsins um sína daga. Hann bjó lengst af á Möðruvöllum í Eyjafirði.

Þorleifur var sonur Gríms Pálssonar sýslumanns á Möðruvöllum og konu hans Helgu Narfadóttur frá Narfeyri. Grímur var launsonur Páls Brandssonar á Möðruvöllum, sonar Brands Jónssonar lögmanns, en móðir hans er óþekkt. Páll Brandsson var auðugur og giftur stórríkri konu, Ingibjörgu dóttur Þorvarðar Loftssonar, og áttu þau tvo syni. Í plágunni síðari 1494 dó Ingibjörg og erfðu synirnir auðævi hennar. Þeir dóu einnig í plágunni og erfði faðir þeirra þá en dó svo sjálfur. Grímur átti engan erfðarétt eftir föður sinn þar sem hann var óskilgetinn, en samkvæmt Jónsbókarlögum áttu skilgetin börn óskilgetinna barna erfðarétt og féll allur arfurinn því til tveggja sona Gríms sem þá voru fæddir, Þorleifs og Benedikts.

Grimur flutti þá að Möðruvöllum og ólst Þorleifur þar upp. Um arfinn spunnust miklar deilur sem stóðu í rúm tuttugu ár því Þorvarður Erlendsson lögmaður, systursonur Ingibjargar Þorvarðardóttur, gerði tilkall til hans. Grímur þurfti að fara frá Möðruvöllum 1511 eftir konungsúrskurð, svonefnda Möðruvallaréttarbót, en náði þeim aftur eftir dauða Þorvarðar og sættist endanlega við systkini hans á Alþingi 1515. Þar með lauk Möðruvallamálum, sem svo voru kölluð.

Þorleifur giftist ungur Sigríði Sturludóttur og átti með henni tvær dætur, Halldóru konu Ara Jónssonar lögmanns og Þorbjörgu konu Orms Sturlusonar lögmanns. Sigríður dó ung og eftir lát hennar sigldi Þorleifur árið 1519 og dvaldi erlendis í sjö ár. Hann kom heim 1526, sama ár og faðir hans dó, tók við búi á Möðruvöllum og fékk sýsluvöld í Eyjafirði. Síðari kona hans var Sólveig Hallsdóttir. Börn þeirra voru Þuríður, sem fyrst var gift Árna Péturssyni í Stóradal og svo Eirík Snjólfssyni lögsagnara á Ási í Fellum, Grímur sýslumaður, sem dó af slysförum, og Hallótta kona Brands Ormssonar á Silfrastöðum. Sagt er að hann hafi verið mjög kvensamur. Hann átti að minnsta kosti þrjú launbörn en sagt er að þau hafi verið mun fleiri.

Eftir að Ari lögmaður, tengdasonur Þorleifs, var tekinn af lífi 1550 varð Þorleifur forráðamaður dætra hans, Helgu og Þóru. Nokkrum árum síðar leitaði Staðarhóls-Páll Jónsson ráðahags við Helgu. Þorleifi var það mjög á móti skapi þótt hann neyddist á endanum til að gefa samþykki sitt og var hann ekki viðstaddur brúðkaupið; raunar mun hann um það leyti hafa flutt sig suður að Strönd í Selvogi og þar dó hann 1560. Miklar deilur spunnust um arfinn eftir hann. Þóttu Ormur tengdasonur hans og Páll maður Helgu ganga freklega um búið á Möðruvöllum og hröktu þeir Sólveigu ekkju Þorleifs þaðan.

Heimildir

The contents of this page are sourced from Wikipedia article on 05 Jul 2020. The contents are available under the CC BY-SA 4.0 license.