Biography
Also Viewed
Quick Facts
Gender |
| |
Birth | 1710 | |
Death | 1803 (aged 93 years) |
Biography
Snorri Björnsson (eða Snorri á Húsafelli) (3. október 1710 – 15. júlí 1803) var íslenskur prestur og skáld á 18. öld, fyrst á Stað í Aðalvík en lengst af á Húsafelli í Borgarfirði.
Snorri fæddist á Höfn í Melasveit, sonur Björns Þorsteinssonar bónda þar og konu hans Guðrúnar Þorbjarnardóttur. Móðuramma hans var Steinunn Finnsdóttir skáldkona. Snorri ólst upp í stórum systkinhópi og æfði ýmsar íþróttir með bræðrum sínum. Þeir kunnu meðal annars að synda, sem var mjög fátítt þá. Hann varð stúdent frá Skálholtsskóla og gerðist síðan prestur á Stað í Aðalvík. Þar var hann í 16 ár og kynntist þar konu sinni, Hildi Jónsdóttur, sem var dóttir fyrirrennara hans á Stað, Jóns Einarssonar.
Árið 1757 fékk Snorri Húsafell og bjó þar síðan til dauðadags. Hann var lítill búmaður og komst því aldrei í miklar álnir en hann var góður smiður og fékkst töluvert við smíðar. Hann var líka sagður afar sterkur og er enn hægt að sjá á Húsafelli kvíar sem hann hlóð og aflraunasteininn sem sagt er að hann hafi reynt krafta sína og annarra á, Kvíahelluna, sem er 180 kíló.
Fljótlega eftir að Snorri flutti að vestan lagðist á það orð að hann væri fjölkunnugur og hefði numið galdur af Hornstrandamönnum, en galdraorð lá löngum á mörgum Vestfirðingum. Var oft leitað til Snorra að liðsinna fólki sem taldi sig verða fyrir ásókn drauga og gekk honum oft vel að telja í það kjark og „lækna“ það og trúðu þá margir því að hann hefði kveðið niður draugana. Var sagt að hann hefði kveðið niður sjötíu eða áttatíu draug á Húsafelli, ýmist í Draugarétt eða Draugagili. Hann var talinn kraftaskáld en litlum sögum fer þó af ljóðagerð hans á yngri árum. Þegar hann tók að reskjast fór hann að yrkja, oft undir fornum og flóknum bragarháttum, en ljóð hans eru lítið við hæfi nútíðarmanna. Hann samdi líka leikrit, gleðileikinn Sperðil, og er það elsta íslenska leikrit sem varðveitt er.
Snorri átti þrjá syni og fjórar dætur sem upp komust. Björn sonur hans lærði til prests og varð aðstoðarprestur föður síns 1789 en varð að láta af embætti ári síðar vegna veikinda og dó 1797. Þá vígðist séra Jón Grímsson að Húsafelli en Snorri bjó þar áfram og messaði öðru hverju fram yfir nírætt. Afkomendur hans búa enn á Húsafelli.
Miklar þjóðsögur spunnust um Snorra, bæði meðan hann var enn á lífi og eftir dauða hans. Um hann hafa verið skrifaðar bækur, meðal annars ævisagan Snorri á Húasfelli, sem Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir sendi frá sér 1989.