Sleitu-Björn Hróarsson var landnámsmaður í Skagafirði. Hann nam land frá Gljúfurá (nefnd Grjótá í Landnámabók en það er talin ritvilla) út að Deildará (nú Grafará á Höfðaströnd). Þetta var mjög stórt landnám og náði yfir hálfa Viðvíkursveit, Hjaltadal, Kolbeinsdal, Óslandshlíð og hluta af Höfðaströnd og Deildardal. Sleitu-Björn hefur því verið einn af fyrstu landnámsmönnum í Skagafirði og síðar fengu þrír aðrir landnámsmenn, þeir Öndóttur, Kolbeinn Sigmundarson og Hjalti Þórðarson, hluta af landnámi Sleitu-Bjarnar. Hann bjó á Sleitu-Bjarnarstöðum, sem nú heita Sleitustaðir.
Margir telja að Sleitu-Björn sé sami maður og Sléttu-Björn, landnámsmaður í Saurbæ, og hafi Sleitu-Björn þá yfirgefið landnám sitt í Skagafirði og flutt sig vestur en aðrir segja að hér sé um tvo menn að ræða og benda meðal annars á að sagt er frá niðjum beggja og er ekkert sameiginlegt með þeim upptalningum. Auk þess bjuggu niðjar Sleitu-Bjarnar í Skagafirði og Þorvarður Spak-Böðvarsson í Neðra-Ási var dóttursonur hans.
Heimildir
- „Landnámabók“.
- Ólafur Lárusson (1940). Landnám í Skagafirði. Sögufélag Skagfirðinga.