Narfi Jónsson

The basics

Quick Facts

Gender
Male
Death1509
The details

Biography

Narfi Jónsson (d. 1509) var íslenskur prestur sem var kirkjuprestur í Skálholti og síðan fyrsti príor á Skriðuklaustri, frá 1496 til 1506, en þá færði hann sig yfir í Þykkvabæjarklaustur og varð ábóti þar.

Faðir Narfa var að öllum líkindum Jón Narfason, sonur Narfa Sveinssonar lögmanns, sem dó í suðurgöngu til Rómar. Narfi prestur er fyrst nefndur í skjölum árið 1488 en árið 1493 var hann orðinn kirkjuprestur í Skálholti og kallaður officialis. Hann virðist hafa verið náinn samstarfsmaður Stefáns Jónssonar Skálholtsbiskups og þess vegna verið valinn forstöðumaður Skriðuklausturs, en biskup taldist sjálfur ábóti þess. Sama ár og Narfi varð príor var vígður kirkjugarður á Skriðu.

Narfi stýrði klaustrinu fyrstu tíu árin og hefur án efa mótað klausturlífið. Hann keypti ýmsar jarðir fyrir klaustrið, enda þurfti nýstofnað klaustur að komast yfir jarðeignir til að treysta reksturinn. Einnig voru klaustrinu gefnar margar jarðir og þar á meðal gaf Halldór nokkur Brynjólfsson klaustrinu eitt hundrað hundraða gegn því að þar skyldi ævinlega segjast messa til sáluhjálpar honum, foreldrum hans og og öllum kristnum mönnum, lifandi og dauðum. Var því eignastaða klaustursins góð þegar Narfi lét af embætti þar 1506 og gerðist ábóti í Þykkvabæjarklaustri. Eftirmaður hans í Skriðu var Þorvarður Helgason.

Þykkvabæjarklaustur var stærra en Skriðuklaustur og stóð á gömlum merg svo að Narfi færðist upp á við í virðingarstiganum þegar hann tók við embætti þar. Ekki fer sögum af embættisferli hans í Þykkvabæ, enda varð hann ekki langur, Narfi dó 1509. Nokkur ár liðu þar til Árni Steinmóðsson eftirmaður hans var vígður.

Heimildir

The contents of this page are sourced from Wikipedia article on 01 Sep 2020. The contents are available under the CC BY-SA 4.0 license.