Biography
Also Viewed
Quick Facts
Gender |
| |
Birth | 1718 | |
Death | 29 May 1808 (aged 90 years) |
Biography
Lauritz Andreas Andersen Thodal (um 1718 – 29. maí 1808) var norskur embættismaður sem var stiftamtmaður á Íslandi 1770 – 1785 og var almennt talinn einn af hæfustu embættismönnum sem hingað voru sendir.
Ferill í Noregi
Thodal var fæddur á Selnæs í Lurø í Noregi og var sonur Anders Christensen, borgara í Þrándheimi, og konu hans Else Larsdatter. Ekkert er vitað um ævi hans fyrr en 1751 en þá varð hann ritari nefndar sem hafði það verkefni að ganga frá landamærum Noregs og Svíþjóðar, mæla þau út og merkja þau. Landamærin eru geysilöng og víðast í óbyggðum og þetta var því mikið verk sem tók meira en fjórtán ár. Thodal virðist hafa verið virkastur nefndarmanna og ávann sér mjög góðan orðstír. Hann var sendur til Stokkhólms og Sankti Pétursborgar árið 1756 í erindum nefndarinnar og fékk þá kansellíráðsnafnbót og fyrirheit um metorð og launað embætti þegar starfi nefndarinnar lyki. Við það var staðið.
Stiftamtmaður á Íslandi
Thodal var gerður að jústitsráði 1767, varð amtsskrifari Björgvinjarstiftis 1768 og 23. janúar 1770 var hann skipaður stiftamtmaður á Íslandi og í Færeyjum. Hann hélt skömmu síðar til Íslands og settist að á Bessastöðum, varð fyrsti stiftamtmaðurinn til að hafa búsetu á landinu og raunar sá fyrsti sem kom þangað, nema hvað Peter Raben mun hafa siglt stutta ferð til Íslands 1720 og að minnsta kosti séð landið.
Thodal bjó á Bessastöðum í 15 ár þótt upphaflega hefði einungis verið tilskilið að hann dveldi á landinu í 5-6 ár. Hann þótti rækja embætti sitt af miklum dugnaði og var vinsæll meðal landsmanna. Hann var sagður hæglátur, ljúfur og lítillátur, þótti réttlátur og mikill friðsemdarmaður. Samvinna hans við íslenska embættismenn var yfirleitt með ágætum þótt nokkur rígur væri á milli hans og Skúla Magnússonar landfógeta. Hann var mikill búmaður, réðist í ýmsar jarðabætur á Bessastöðum og reyndi ýmsar nýjungar í búskapnum sem þó gáfust misvel.
Thodal var jafnframt stiftamtmaður í Færeyjum til 1775 en þá voru þær settar undir stiftamtmann Sjálands. Árið 1784 óskaði Thodal eftir að fá að láta af starfinu vegna heilsubrests, enda var hann þá hátt á sjötugsaldri og sagðist þola illa loftslagið á Íslandi, og var það þegar heimilað en vegna þess hörmungarástands sem ríkti í Móðuharðindunum frestaði hann brottför sinni til næsta árs og lét af embætti 27. apríl 1785.
Eftirlaunatími og fjölskylda
Hann bjó eftir það í Kaupmannahöfn og sinnti Íslandsmálum í Rentukammerinu og sat í nefndum um málefni Íslands. Vegna þessa hélt hann fullum stiftamtmannslaunum til dauðadags 1808. Hann var sagður besti talsmaður Íslands í Kaupmannahöfn eftir að Jón Eiríksson dó en þeir voru góðir vinir. Thodal varð forseti Lærdómslistafélagsins eftir fráfall Jóns.
Rétt áður en Thodal fór til Íslands giftist hann auðugri norskri kaupmannsekkju, Anna Helene Klow, og fór hún og tvö börn hennar með honum til Íslands en hún dó eftir hálfs árs hjónaband. Börn hennar ólust upp á Bessastöðum en stjúpdóttir Thodals, Anna Wilhelmina Klow, lést þar í janúar 1778, 18 ára að aldri, og fékk það mikið á Thodal, sem kenndi sjálfum sér um, en hann hafði meinað henni að giftast ungum dönskum verslunarstjóra í Hafnarfirði og var sagt að stúlkan hefði tekið það svo nærri sér að hún hefði dáið; Thodal skipti um skoðun þegar hún var orðin fársjúk en þá var það of seint.