Biography
Also Viewed
Quick Facts
Gender |
| |
Birth | 1571 | |
Death | 11 October 1652 (aged 81 years) |
Biography
Ari Magnússon (eða Ari í Ögri) (1571 – 11. október 1652) var sýslumaður á Vestfjörðum og bjó í Ögri við Ísafjarðardjúp og er oftast kenndur við þann stað.
Foreldrar Ara voru Magnús Jónsson prúði, sýslumaður í Bæ á Rauðasandi, og kona hans, Ragnheiður dóttir Eggerts lögmanns Hannessonar. Jón murti móðurbróðir Ara hafði flúið land eftir að hafa orðið mannsbani og sest að í Hamborg og Eggert afi hans dvaldist þar líka síðustu æviárin. Ari átti því nána ættingja þar og var sendur þangað ungur til náms; í erfiljóði segir að hann hafi verið þar í níu ár fyrir tvítugt. Hann mun því hafa verið mjög vel menntaður á síns tíma vísu.
Ari var fyrst sýslumaður í Barðastrandarsýslu, en síðar í Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu. Hann var einnig umboðsmaður konungsjarða í Ísafjarðarsýslu og mun því hafa verið mjög valdamikill maður og stórauðugur. Hann þótti harður í horn að taka.
Einna þekktastur er hann fyrir Spánverjavígin svokölluðu, þegar þrjú basknesk hvalveiðiskip brotnuðu á Reykjarfirði á Ströndum en 83 menn björguðust. Þeir skiptu sér í hópa og dreifðust um Vestfirði. Sumir þeirra voru drepnir í Dýrafirði, Ari stýrði herleiðangri út í Æðey, þar sem átján mönnum var slátrað, en flestir Baskanna þraukuðu um veturinn á Vatneyri við Patreksfjörð og náðu um vorið erlendu fiskiskipi og komust á brott. Konungur hafði fellt þann úrskurð að þeir væru réttdræpir, en alltaf hafa þessi víg þótt heldur nöturleg í Íslandssögunni.
Ari er sagður hafa veri einkar höfðinglegur ásýndum, jötunn að burðum og manna hávaxnastur. Kona hans, gift 1594, var Kristín Guðbrandsdóttir (1574-1652), dóttir Guðbrands Þorlákssonar, biskups á Hólum. Börn þeirra voru Magnús sýslumaður á Reykhólum, Þorlákur bóndi í Súðavík, Halldóra kona Guðmundar Hákonarsonar sýslumanns á Þingeyrum, Helga og Jón, skólameistari í Skálholti og síðar lengi prestur í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp.